Lærðu að syngja með þínu lagi

Öndun

Það þarf ekki að kenna fólki að anda. Við kennum nemendum að opna ákveðnar víddir  í því sem við leiðbeinum þeim að djúpri, slakri öndun og því að stýra lofti á leið út í tali og söng. Þessi þáttur námsins byggir á áralangri þjálfun. Forskot í þessari þjálfun hafa oft börn og unglingar sem hafa stunda íþróttir og nám á blásturshljóðfæri frá unga aldri.

Djúp, slök öndun er öllum mikilvæg og ein af grunnstoðum í söngnámi frá upphafi.  Söngkennarinn kennir nemendum leiðir til að upplifa djúpa öndun og hvernig hægt er að þjálfa þá vöðva sem skipta máli við útöndun.

Á einfaldan hátt má segja að verið sé að kenna nemandanum að virkja eða hlúa að  líkamanum í gegn um söngnámið. Þess vegna er líkamstaðan okkur svo mikilvæg enda hefur hún beina tengingu við þá líkamlegu og andlegu vellíðan sem nemendur upplifa í söngnámi.

Helstu öndunarvöðvarnir eru:

  1. Þind (ósjálfráður vöðvi)
  2. Millirifjavöðvar
  3. Kviðarholsvöðvar
  • 223681_diaphragmÞindin er stærsti og mikilvægasti öndunarvöðvinn. Hún gerir líkamanum kleift að draga loft niður í lungun og hún sér um það að koma loftinu úr lungungum aftur.
  • Þegar við tölum gerum við það yfirleitt án þess að velta fyrir okkur hvaða vöðvar koma við sögu en til þess að geta talað og/eða sungið þá þurfum við að fá stjórn yfir loftinu sem þindin setur út.
  • Þá koma til fleir vöðvar eins og t.d. millirifjavöðvar og kviðarholsvöðvar.
  • Í venjulegu tali reyndir ekki svo ýkja mikið á þessa vöðva. Þú getur samt auðveldlega fundið hvernig þeir virka ef þú styður hönd á magann þegar þú talar. Ef þú finnur alls ekki neitt ertu líklega ekki með neina tengingu við líkamann.
  • þegar við ætlum að láta röddina berast þurfum við á þessum öndunarvöðvum að halda. Í klassísku söngnámi þjálfast eðlilega þessir vöðvar jafnt og þétt því nemandi á að læra að láta líkamann “bera” röddina.
  •  Orðið “þindaröndun” er lýsing á því sem öll spendýr gera þegar þau anda inn og út. Í söngnámi mætti tala um að “þindarstjórnun” í samhengi við útöndun. Í klassískum söng er einnig talað um “stuðning”, að styðja tóninn. Það sem átt er við er að söngvarinn er að stjórna loftstreyminu á leiðinni út úr lungunum.
  • Vel þjálfaðir klassískir söngvarar hafa nær fullkomna stjórn á útöndun. Slík öndunartækni krefst áralangrar þjálfunar.