Lærðu að syngja með þínu lagi!

Syngja.is – Akureyri

 

Netfang: syngja@syngja.is
Símanúmer: 868 9858

Sigríður hóf kennsluferil sinn haustið 2002. Hún starfaði sem söngkennari og fagstjóri söngdeildar við Tónlistarskólann á Akureyri frá árinu 2002 – 2007. Frá 2007 – 2014 kenndi hún einsöng við Söngskóla Sigurðar Demetz í Reykjavík. Hún hefur rekið vefinn Syngja.is frá árinu 2010.

Sigríður lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautarskóla Suðurnesja árið 1991 og 8. stigi og  burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 1995. Aðalkennarar hennar þar voru Elísabet F. Eiríksdóttir og síðar Þuríður Pálsdóttir.

Haustið 1995 hóf hún nám við óperudeild Tónlistarskólans í Vínarborg. Ári síðar hóf hún nám við óperudeild Tónlistarháskólans í Vínarborg þaðan sem hún útskrifaðist með hæstu einkunn árið 2000. Frá 1998-2001 stundaði hún einnig nám við ljóða- og óratoríudeild skólans og naut þar leiðsagnar prófessors Charles Spencer.

Sigríður lauk námi í kennslu og uppeldisfræði til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands (þá Kennaraháskóla Íslands) árið 2004 og meistaranámi í stjórnun og stefnumótun frá sama skóla vorið 2013 með áherslu á meðvirkni á vinnustöðum.

Sigríður hóf söngferil sinn í Þjóðaróperunni í Vínarborg árið 1997. Hún var lausráðin einsöngvari við Þjóðaróperuna til ársins 2002. Hún söng ýmis hlutverk við húsið, m.a. þriðju dömu í Töfraflautunni, Fjodor í Boris Godunow og Mercedes í Carmen.

Á Íslandi hefur hún sungið hlutverk Zitu í Gianni Schicci með Norðurópi,  þriðju dömu í Töfraflautunni, Marcellinu í Brúðkaupi Fígarós, Mother Goose í Rake’s Progress og Lolu í Cavalleria Rusticana og ýmis hlutverk í Óperuperlum hjá Íslensku óperunni. Hún hefur haldið fjölda ljóðatónleika og komið fram sem einsöngvari með ýmsum kórum og hljómsveitum, m.a. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhlómsveit unga fólksins.