Fagmennska – Reynsla – Sveigjanleiki í söngnámi og heilsueflandi raddrækt.

Söngur og heilsa

Fyrir söngvara sem hefur varið stórum hluta ævi sinnar í að læra söng, syngja og kenna fólki að syngja eru þau jákvæðu áhrif sem söngur hefur á andlega og líkamlega heilsu orðin sjálfgefin.

Við hugsum í raun lítið um þau, en heyrum nemendur tala um vellíðan, við sjáum sjálfsmynd nemenda styrkjast og líkamsmeðvitund aukast. Þegar við horfum á eftir þeim úr tímum upplifum við þakklæti og gleði.  Það er stór gjöf að geta miðlað þekkingu og enn stærri gjöf að geta miðlað leið að vellíðan.

Áhrif söngs og söngnáms á andlega og líkamlega heilsu hafa verið töluvert mikið rannsökuð. Your Healing Voice – Article sing for health research 3 (britishacademyofsoundtherapy.com). Vitað er að söngur framkallar jákvæðar breytingar á líkamsstarfsemi, ekki síst í gegn um framleiðsu hormóna.

Rannsóknir hafa einkum beinst að  hóp- eða kórsöng og tengslum hans við bætta heilsu en niðurstöður nýlegrar rannsóknar á einkanámi í söng sýna að námið hefur sömu jákvæðu áhrifin og kórsöngur en að ávinningurinn af einkanámi er enn meiri.

Einstaklingsmiðuð nálgun  er þannig talin efla og dýpka skilning á samhengi líkamstöðu, öndunar og raddbeitingar. Þátttakendur lýstu auknu sjálfstrausti og félagsfærni og  jákvæðum breytingum á geðheilsu og lífslöngun.