Netfang: audur@syngja.is
Símanúmer: 8498348
Auður Gunnarsdóttir er fædd í Reykjavík. Hún lauk 8. stigi í söng frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 1991 þar sem kennari hennar var Ólöf Kolbrún Harðardóttir. Árið 1992 hélt hún til Stuttgart þar sem hún stundaði framhaldsnám við tónlistarháskólann og lauk árið 1997 prófi frá óperuskólanum og ljóða- og einsöngvaradeild. Kennarar hennar þar voru Prof. Luisa Bosabalian og Carl Davis.
Haustið 1999 fékk Auður samning við óperuna í Würzburg þar sem hún söng hin ýmsu hlutverk, svo sem Rosalindu í Leðurblökunni, Antóníu í Ævintýrum Hoffmanns, Pamínu í Töfraflautunni, Micaälu í Carmen, Donnu Elviru í Don Giovanni, Blance í Samtal karmellítanna, Annínu í Nótt í Feneyjum, Luísu í Unga lordinum o.m.fl. Auk þess hefur Auður komið fram í óperuhúsunum í Mannheim, Heidelberg, Bielefeld og Hannover.
Auður hefur haldið fjölda ljóðatónleika hér heima og erlendis. Á námsárunum sótti Auður námskeið hjá Renötu Scotto, Brigitte Fassbaender og Hermann Prey.
Auður hefur hlotið fjölda styrkja, m.a. listamannalaun ríkisins og styrk úr Tónlistarsjóði. Árið 1999 kom út geisladiskurinn Íslenskir söngvar þar sem Jónas Ingimundarson leikur á píanóið, en þau hafa unnið mikið saman, hljóðritað tónlist íslenskra tónskálda og komið fram á Tíbrár tónleikum Salarins.
Í Íslensku óperunni hefur Auður farið með hlutverk Mimiar í La Bohéme, Pamínu í Töfraflautunni og Greifynjunnar í Brúðkaupi Fígarós. Auður hefur einnig komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands.